Kórinn Kliður
kór / hljómsveit
„Kór+“
Kliður er kollektíva listafólks úr ýmsum greinum. Hann er skipaður hinum og þessum – og þó ekki alltaf sömu hinum og þessum. Innan vébanda hans eru tónlistarmenn, tónskáld, sviðslistafólk, skáld, myndlistarmenn, kvikmyndaleikstjórar og jógakennarar – fólk sem tengst hefur hvert öðru á dularfullan hátt í gegnum íslenska tón- og listasenu. Hver og einn leggur til rödd sína í samsönginn og þjónar heildinni á meðan sungið er.
Kliður hefur sungið í ýmsum myndum og undir ólíkum nöfnum, komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum bæði hér heima og erlendis auk þess að vinna að samstarfsverkefnum með jafn ólíkum listamönnum og B.O.X. Baroque Orchestration X, Benna Hemm Hemm, Kiru Kiru, dönsku hljómsveitinni Efterklang, Bedroom Community auk þess að vera með dagslanga dagskrá í Iðnó á Listahátíð í Reykjavík, í júní 2022.
Frumsamin verk
Kliður stendur traustum fótum í hinni ríku kórsöngshefð Íslendinga en skapar sér þó nokkra sérstöðu hvað efnisskrá áhrærir því Kliður flytur einvörðungu frumsamin tónverk eftir meðlimi kórsins. Meðal verka sem pöntuð hafa verið af kórnum og hann hefur frumflutt eru:
Eining eftir Pétur Þór Benediktsson
Maríuljóð eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur
Suðurlandið eftir Sigurlaugu & Björn Thorarensen
Tunglið eftir Kjartan Holm
Þótt form þín hjúpi eftir Ragnar Helga Ólafsson
Wool or Hair eftir Valgeir Sigurðsson
Svar við ónefndri gátu eftir Ólaf Björn Ólafsson
Ólíklega eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur
Music eftir Gyðu og Kristínu Önnu Valtýsdætur
Promised Land eftir Jelenu Ciric
Heim til míns hjarta eftir Martein Sindra Jónsson
Kliður eftir Snorra Hallgrímsson
Saga kórsins
Kliður er kór skipaður listamönnum úr ýmsum áttum sem um nokkurra ára skeið hefur hist vikulega til að syngja saman. Sérstaða kórsins er að hann flytur eingöngu nýja frumsamda tónlist eftir tónskáld innan hópsins, gjarnan við texta eftir rithöfunda innan hópsins …